upload close

Algengustu ofnæmisvaldar

Algengustu ofnæmisvaldar
Algengast er að eftirtaldar fæðutegundir valdi ofnæmi: Mjólk, egg, fiskur, skelfiskur, sojabaunir, hnetur, jarðhnetur, ertur (grænar baunir) og hveiti. Það eru ákveðin prótein í þessum matvælum sem eru ofnæmisvakar og valda því ofnæmiseinkennum.

Mjólk og egg eru algengustu ofnæmisvaldarnir hjá börnum. Mjólkur- og eggjaofnæmi hjá börnum hverfur í flestum tilfellum á 1.-3. aldursári. Ofnæmi fyrir fiski, skelfiski og hnetum hverfur hins vegar sjaldnast. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir fiski eru yfirleitt mjög næmir og þá er oftast um að ræða ofnæmi fyrir flestum fisktegundum þótt til séu undantekningar frá því. Ofnæmi fyrir rækjum, humri, hörpuskel, ostrum og kræklingi er einnig þekkt. Sojaprótein geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum. Börn með ofnæmi fyrir mjólk geta einnig haft ofnæmi fyrir sojamjólk.

Mjólkurprótein í Kjörís vörum
Undanrennuduft er í öllum pakkaís, kúluís og toppís. Einnig er mjólkurprótein í Lúxuspinnum frá Kjörís. Súkkulaðidýfa og pinnasúkkulaði sem er á frostpinnum frá Kjörís eru einnig með mjólkurpróteinum. Eini ísinn sem er ekki með mjólkurpróteinum er Ananas Hlunkur og Ananas “Mínus” Hlunkur sem er án súkkulaðis. Einnig er sérframleitt Græn Flaug “án súkkulaðis” fyrir LHS ofl.

Soja prótein í Kjörís vörum
Soja prótein eða soja vörur eru aðeins að finna súkkulaðidýfu og pinnasúkkulaði frá Kjörís en ekki í ísnum sjálfum. Í öllu súkkulaði sem Kjörís notar er efni sem heitir “lesetin” og er unnið í flestum tilfellum úr sojabaunum.

Egg í Kjörís vörum
Egg er aðeins að finna í Konfekt-ístertum og 5 ltr. Konfekt-ís frá Kjörís. Þetta stafar af marengs sem er í þessum tegundum. Brauðform í ísbúðum eru ekki framleidd af Kjörís en ætla má að þau innihaldi egg. Öll bindiefni sem Kjörís notar eru ekki úr eggjum heldur úr jurtaríkinu (þang og gúmmíplöntum).

Hnetur í Kjörís vörum
Allir Grænir Frostpinnar(Froskaís) og Grænir Hlunkar eru með pistasíuhnetu-bragði. Einnig er skýrt tekið fram í innihaldslýsingu vöru ef um hnetur er að ræða í vörunni eins og í Pekan-Mjúkís, Núggat Mjúkís, Karamellu-Pekan 5 ltr. og fleiri tegundum. Sérskreyttar ísstertur eru með marsipani sem unnið er úr hnetum en þá er hægt að fá sykurpan í staðin ef óskað en það getur engu að síður innihaldið restar af möndlum(samkv. framleiðanda). Kjörís ábyrgist ekki með 100% vissu að í öðrum tegundum sé ekki restar af hnetum eða ísinn hafi einhverstaðar komist í snertingu við hnetu-agnir og/eða leifar.

Ekki eru sérstakt framleiðslurými fyrir hnetu og/eða möndluvörur!

Í framleiðslu Kjörís er alltaf leitast við að framleiða síðast á daginn (eða eitt og sér yfir framleiðsludag) þær vörur sem valda og/eða geta valdið ofnæmi eða ofnæmis-viðbrögðum. Hér er um að ræða hnetu og möndluís, rúsínuís, jarðarberjaís eða aðrar þær tegundir sem þekktar eru sem ofnæmisvaldur. Lagt mikið upp úr hreinsun og þrifum eftir slíkar framleiðslulotur.